Sándor Kerekes er nýr organisti í Egilsstaða,- Vallanes- og Þingmúlakirkjum
Ungverski tónlistarmaðurinn Sándor Kerekes hefur verið ráðinn organisti og kórstjóri í Egilsstaðakirkju, Vallaneskirkju og Þingmúlakirkju og tekur við starfinu af Torvald Gjerde.
Torvald, sem lýkur nú formlegri starfsævi, hefur verið organisti í kirkjunum þremur í rúm 20 ár, staðið fyrir öflugu kóra- og tónlistarlífi á Fljótsdalshéraði og fengið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín í þágu menningarlífs á Austurlandi. Honum voru þökkuð vel unnin störf við síðustu guðsþjónustu sína í Egilsstaðakirkju, þann 3. júlí sl.

Auglýst var eftir nýjum organista sl. vetur og bárust alls sjö umsóknir, en tveir umsækjendur drógu sig til baka. Ráðningarnefnd á vegum sóknarnefndanna þriggja ákvað að bjóða Sándor Kerekes starfið.

Sándor Kerekes er fæddur í Ungverjalandi árið 1975 og hefur lokið meistaragráðu í orgelleik og tónlistarkennslu frá háskólanum í Debrecen. Hann kemur til okkar frá ungversku borginni Nyíregyháza þar sem hann hefur undanfarin ár starfað sem píanókennari og kirkjuorganisti. Alls hefur hann starfað í yfir 20 ár við tónlistarkennslu, orgelleik og kórstjórn í heimalandi sínu. Hann er fjölhæfur tónlistarmaður með mikinn metnað fyrir kórastarfi og til gamans má þess geta að hann stofnaði með félaga sínum popphljómsveitina 2. NAP árið 2020! Sándor talar ensku og er þegar byrjaður að æfa sig í íslensku. Hann er kvæntur Mészöly Virág Kerekesné óbóleikara og eiga þau fjögur börn á leik- og grunnskólaaldri. Fjölskyldan er nú að flytja til Egilsstaða og Sándor segist hlakka til að takast á við starfið og nýjar áskoranir.
Sándor leikur í fyrsta skipti við athöfn í Egilsstaðakirkju á sunnudagskvöldið, 14. ágúst, þegar gönguguðsþjónusta hefst með stund í kirkjunni kl. 20:00. Þangað erum við að sjálfsögðu öll velkomin.
Posted on 10/08/2022, in Uncategorized. Bookmark the permalink. Færðu inn athugasemd.
Færðu inn athugasemd
Comments 0