Helgistund frá Egilsstaðakirkju

Þessa bóndadagshelgi sendum við stutta nethelgistund frá Egilsstaðakirkju þar sem þemað er kærleikur og kærleiksþjónusta. Dóra Sólrún Kristinsdóttir djákni, sem sinnir djáknaþjónustu í Egilsstaðaprestakalli nú á vormisseri 2022, flytur hugvekju. Dóra, Þorgeir Arason og Torvald Gjerde organisti syngja tvo bænasálma, nr. 367, Eigi stjörnum ofar (lag: Hans Puls/ ljóð: Frostenson-Sigurbjörn Einarsson), og nr. 504, Ástarfaðir himinhæða (lag: J. Reichardt/ ljóð: Steingrímur Thorsteinsson). – Við stefnum á að geta hafið opið helgihald að nýju í febrúar.


Bænastund í Seyðisfjarðarkirkju

Þó að ekki sé hægt að koma saman við guðsþjónustu í kirkjunni getum við átt samfélag í bæninni.

Messur og sunnudagaskóli falla niður í janúar

Þar sem samkomutakmarkanir hafa verið framlengdar og enn greinist daglega mikill fjöldi Covid-smita verða engar guðsþjónustur og enginn sunnudagaskóli í Egilsstaðaprestakalli í janúar. Stefnt er að því að starf sunnudagaskólans í Egilsstaðakirkju hefjist að nýju þann 7. febrúar.

Starf prests í Egilsstaðaprestakalli laust

Biskup Íslands hefur auglýst starf prests í Egilsstaðaprestakalli laust til umsóknar. Um er að ræða þá þjónustu prests sem sr. Ólöf Margrét Snorradóttir sinnti áður. Umsóknarfrestur rennur út þann 24. janúar nk. Allar upplýsingar má finna á heimaðu Þjóðkirkjunnar.

Starf organista laust til umsóknar

Organisti og kórstjórnandi við Egilsstaða-, Þingmúla- og Vallanessóknir

Sóknarnefndir í Egilsstaða-, Þingmúla- og Vallanessóknum auglýsa laust til umsóknar starf organista og kórstjórnanda við sóknirnar frá og með 1. ágúst 2022. Um er að ræða 100% starf, þ.e. 85% starfshlutfall við Egilsstaðasókn og 15% við Þingmúla- og Vallanessóknir.

Egilsstaðakirkja. Mynd: JÞJ.
Vallaneskirkja. Mynd: HS.
Þingmúlakirkja. Mynd: HS.

Organisti hefur umsjón með hljóðfæraleik við athafnir í sóknunum og stýrir blómlegu kórastarfi á svæðinu. Tónlist skipar stóran sess við allt helgihald og kirkjustarf í sóknunum. Við kirkjurnar þrjár starfa nú tveir kirkjukórar, barnakór og kammerkór. Áhersla er lögð á að hlúa að og efla kórastarfið. Sóknirnar þrjár tilheyra Egilsstaðaprestakalli og mun organisti starfa náið með prestum, sóknarnefndum og meðhjálpurum ásamt sjálfboðaliðum í kirkjustarfinu.

Ábyrgðarsvið:

  • Stýra tónlistarstarfi safnaðanna í samráði við presta, sóknarnefndir og annað starfsfólk
  • Hljóðfæraleikur við athafnir, helgihald og annað kirkjustarf
  • Stjórn kórastarfs við sóknirnar
  • Umsjón með hljóðfærum í eigu safnaðanna

Hæfnikröfur:

  • Kirkjutónlistarmenntun frá Tónskóla þjóðkirkjunnar eða sambærilegt nám
  • Reynsla af flutningi tónlistar við helgihald
  • Metnaður og áhugi fyrir öflugu kórastarfi
  • Listfengi og hugmyndaauðgi
  • Hæfni í mannlegum samskiptum
  • Hæfni til að starfa sjálfstætt

Launakjör eru samkvæmt samningum Félags íslenskra organista (FÍO) og Þjóðkirkjunnar.

Umsóknarfrestur um starfið er til 15. febrúar 2022 og með umsóknum skulu fylgja afrit af prófskírteinum og ferilskrá. Umsókninni skal fylgja stutt greinargerð um framtíðarsýn og væntingar og samþykki um öflun upplýsinga úr sakaskrá. Umsóknum skal skilað á netfangið: egilsstadakirkja@gmail.com.  Nánari upplýsingar um starfið veitir Þorgeir Arason sóknarprestur í s. 847 9289 og á thorgeir.arason@kirkjan.is.

Barna- og æskulýðsstarf á nýju ári

Nánar auglýst síðar.

Áramótakveðja

Allt helgihald í sóknum Þjóðkirkjunnar liggur niðri nú um áramót vegna kórónuveirufaraldursins. Aftansöng á gamlárskvöld í Egilsstaðakirkju og nýársguðsþjónustu í Bakkagerðiskirkju er því aflýst.

Hér á Facebook-síðu Egilsstaðaprestakalls má hins vegar finna stutta áramótakveðju frá Egilsstaðakirkju, þar sem sungnir eru sálmarnir Fögur er foldin og Nú árið er liðið og sóknarprestur flytur örhugvekju.

Guð gefi ykkur gleðilegt nýtt ár!

Aftansöngur jóla í Egilsstaðakirkju

Aftansöng jóla í Egilsstaðakirkju 2021

má finna hér á Facebook-síðu prestakallsins

og líka hér á Youtube-rás kirkjunnar.

Aftansöngurinn er aðeins á vefnum þetta árið vegna aðstæðna í samfélaginu. Kór Egilsstaðakirkju syngur undir stjórn Torvalds Gjerde organista. Øystein Magnús Gjerde syngur einsöng í „Ó, helga nótt.“ Prestur er Þorgeir Arason. Lesarar Auður Anna Ingólfsdóttir og Jónas Þór Jóhannsson. Myndatöku, hljóð og tæknivinnslu önnuðust Heiður Ósk Helgadóttir og Hjalti Stefánsson hjá HS Tókatækni. – Verður aðgengilegt öll jólin.

Minnum einnig á „Opna jólakirkju“ í Egilsstaðakirkju og Seyðisfjarðarkirkju kl. 16:00-18:00 á aðfangadag. Jólatónar leiknir, á 15 mín. fresti verður flutt jólaguðspjall eða örhugvekja. Hægt að koma og fara að vild. Verið velkomin – Öllum sóttvarnareglum fylgt. Hátíðin hringd inn kl. 18:00.

Jólin 2021 í Egilsstaðaprestakalli

Öllum fyrirhuguðum guðsþjónustum um jólin í kirkjum Þjóðkirkjunnar á Fljótsdalshéraði er aflýst vegna sóttvarnaráðstafana.

Aftansöngur jóla í Egilsstaðakirkju birtist hér á vefnum á aðfangadag og verður aðgengilegur yfir hátíðirnar.

„Opin jólakirkja‟ verður í Egilsstaðakirkju og Seyðisfjarðarkirkju milli kl. 16-18 á aðfangadag, 24. desember.

Organisti leikur þá jólatóna, á um 15 mín. fresti verður flutt guðspjall eða örhugvekja og hægt verður að kveikja á kerti. Hægt að koma og fara að vild. Grímuskylda, gætt að fjölda í kirkju og öðrum sóttvarnareglum fylgt. Verið velkomin.

Gleðileg jól!

Aðventustund Eiða- og Hjaltastaðarsókna

Á fjórða sunnudegi í aðventu bjóðum við upp á aðventustund frá Eiða- og Hjaltastaðasóknum sem tekin var upp í Eiðakirkju. Organisti er Jón Ólafur SIgurðsson, kór Eiðakirkju syngur ásamt barnakór Hjaltastaðarsóknar. Kórstjóri barnakórs er Sigríður Laufey Sigurjónsdóttir. Heiður Ósk Helgadóttir syngur einsöng. Prestur er Sigríður Rún Tryggvadóttir.

%d bloggurum líkar þetta: