Aðventuhátíð Egilsstaðakirkju 4. des. kl. 18:00

Sunnudaginn 4. desember, annan sunnudag í aðventu, verður nóg að gerast í Egilsstaðakirkju:

Sunnudagaskólinn kl. 10:30 og nú eru Mýsla, Rebbi og leiðtogar sunnudagaskólans öll komin í jólaskap!

Aðventuhátíð Egilsstaðakirkju kl. 18:00. Barnakór Egilsstaðakirkju og Kór Egilsstaðakirkju syngja undir stjórn Sándors Kerekes organista og Hlínar P. Behrens, sem stjórnar barnakórnum með Sándori. Strengjasveitir nemenda úr Tónlistarskólanum á Egilsstöðum koma fram undir stjórn Mairi L. McCabe. Jóhanna Harðardóttir leikskólakennari flytur aðventuhugleiðingu. Fermingarbörn flytja kertaljósaþátt og að sjálfsögðu syngjum við öll saman, tendrum ljós og komumst í hátíðarskap! (Myndin er frá jólum 2021 enda er jólasnjórinn ekki enn kominn til Egilsstaða þetta árið!)

Aðventukvöld í Kirkjubæjarkirkju

Aðventukvöld Kirkjubæjar- og Sleðbrjótssókna

verður á Kirkjubæ 1. desember kl. 19:30 (ath. tímann)

Fjölbreytt dagskrá: Kirkjukór sóknanna syngur aðventu- og jólalög, Kristján Ketill Stefánsson syngur einsöng, Skúli Björn Gunnarsson flytur aðventuhugvekju o.fl. Organisti Jón Ólafur Sigurðsson. Prestur Þorgeir Arason.

Kvenfélag Hróarstungu býður í aðventukaffi í Tungubúð eftir stundina í kirkjunni.

Verum velkomin!

Aðventukvöld á Valþjófsstað

Við hefjum jólaundirbúninginn á hátíðlegri stund í Valþjófsstaðarkirkju, á sunnudagskvöldið kemur, 4. desember kl. 20. Þar fáum við að upplifa aðventuna á ljúfum nótum í tali og tónum.

Kór kirkjunnar syngur aðventu- og jólasálma undir stjórn Jón Ólafs Sigurðarsonar, og Hlín Pétursdóttir Behrens syngur einsöng. Þá fáum við að syngja í sameiningu aðventu- og jólasálma sem koma okkur í aðventuskap.

Við hlýðum svo á aðventuorð frá Urði Gunnarsdóttur, verkefnastjóra hjá Austurbrú, sem hefur af mörgu að miðla.

Eftir stundina verður boðið upp á létta hressingu og við höldum endurnærð út í aðventuna og undirbúning jólanna. Verið innilega velkomin.

Aðventuhátíð Vallanes- og Þingmúlasókna

Aðventuhátíð Vallanes- og Þingmúlasókna verður laugardaginn 3. desember kl. 15 í Vallaneskirkju. Þar fögnum við aðventunni og undirbúningi jólanna með hátíðlegum söng og uppbyggilegu tali.

Kór Vallanes- og Þingmúlakirkju syngur undir stjórn Sándor Kerekes. Einnig verður almennur söngur og við rifjum upp klassíska aðventu- og jólasálma sem koma öllum í aðventuskap.

Sigrún Blöndal kennari flytur okkur svo aðventuorð í hugleiðingarformi og við förum vel nestuð út í aðventuna.

Innilega velkomin!

Aðventukvöld í Fellabæ 30. nóvember

Hátíðlegt aðventukvöld verður í Kirkjuselinu í Fellabæ, miðvikudaginn 30. nóvember kl 20. Við hlýðum á fagra tónlist undir stjórn Drífu Sigurðardóttur og kórs Áskirkju, börn úr barnastarfi kirkjunnar syngja aðventusálma og Einar Guttormsson frá Krossi flytur ávarp. Á eftir hressum við okkur á góðgæti við allra hæfi.

Tökum tímann frá og njótum kyrrðar og gæða aðventunnar í tengslum við hvert annað!

Fyrsti sunnudagur í aðventu og mikið um að vera í kirkjum prestakallsins.

Aðventustund fjölskyldunnar 27. nóvember kl. 10.30

Það er gott að marka uppaf aðventunnar og jólaundirbúnings með því að koma til kirkju og eiga saman nærandi og skemmtilega stund. Á fyrsta sunnudegi í aðventu syngjum við fallega sálma og tendrum fyrsta ljósið á aðventukransinum. Barnakórinn leiðir nokkra söngva undir stjórn Sándors Kerekes sem þjónar ásamt sr. Kristínu.

Þá fáum við góðan gest en það er Ágústa Ósk Jónsdóttir, sem ætlar að bregða sér í sögustólinn og svara nokkrum spurningum hvernig aðventan var í gamla daga!

Verum innilega velkomin í Egilsstaðakirkju í byrjun aðventu!

Sunnudagurinn 20. nóvember

Egilsstaðakirkja:

Sunnudagaskólinn kl. 10:30.

Þorgeir, Sándor, Elísa, Guðný og Ragnheiður taka vel á móti börnum á öllum aldri. Litamyndin og hressingin á sínum stað.

Tónlistarmessa kl. 20:00.

Söngnemendur Hlínar Pétursdóttur Behrens flytja fallega tónlist. Ný Sálmabók þjóðkirkjunnar tekin formlega í notkun í Egilsstaðakirkju. Kór kirkjunnar leiðir almennan söng. Organisti Sándor Kerekes. Prestur Þorgeir Arason. Meðhjálpari Ástríður Kristinsdóttir. Kaffisopi í lokin.

Seyðisfjarðarkirkja:

Sunnudagaskólinn kl. 11.00.

Gunnfríður Katrín og aðstoðarfólk leiðir skemmtilega stund fyrir börn og fullorðna.

Aðalfundur Vallaneskirkju

Aðalsafnaðarfundur Vallanessóknar verður haldinn

í Stefánsstofu – þjónustuhúsi við kirkjuna

miðvikudaginn 23. nóvember kl. 20:00.

Dagskrá: Venjuleg aðalfundarstörf.

Sóknarnefnd og sóknarprestur

%d bloggurum líkar þetta: