Uppstigningardagur – Dagur eldri borgara

Ferming í þjóðkirkjunni á Héraði 2025

Til foreldra og forráðamanna barna á Héraði f. 2011!

Barninu þínu er boðið að taka þátt í fermingarundirbúningi þjóðkirkjunnar í Egilsstaðaprestakalli veturinn 2024-2025. Umsjón með starfinu hafa prestarnir Kristín Þórunn, Sigríður Rún og Þorgeir. Hægt verður að sækja fermingarfræðslu í Safnaðarheimili Egilsstaðakirkju eða í Kirkjuselinu í Fellabæ.

Í fermingarfræðslu þjóðkirkjunnar er lögð áhersla á góða samveru, helgihald kirkjunnar og að kynna og upplifa sögur Biblíunnar, boðskap Jesú, kristna siðfræði og gildi trúarinnar í daglega lífinu okkar.

Upphaf fermingarstarfsins verður með guðsþjónustu og kynningarfundi fyrir væntanleg fermingarbörn og forráðamenn (veljið annan hvorn tímann):

  • í Egilsstaðakirkju, sunnudaginn 25. ágúst kl. 20:00
  • í Kirkjuselinu Fellabæ, sunnudaginn 1. september kl. 18:00

Tímasetning fræðslunnar veturinn 2024-2025 (veljið einn hóp):

a) Safnaðarheimili Egilsstaðakirkju (Hörgsás 4): þriðjudaga kl. 15:45-16:45 (10x/önn – byrjar 3. sept.)

b) Safnaðarheimili Egilsstaðakirkju (Hörgsás 4): miðvikudaga kl. 7:55-8:40 (12x/önn – byrjar 4. sept.)

c) Kirkjuselið Fellabæ (sambyggt íþróttahúsinu): mánudaga kl. 14:30-15:30 (10x/önn – byrjar 2. sept.)

Fermingarnámskeið (fermingarbúðir) í Kirkjumiðstöð Austurlands að Eiðum er mikilvægur og skemmtilegur hluti af fermingarvetrinum þar sem við gistum tvær nætur og tökum þátt í fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá. Mæting sunnudaginn 29. september 2024 kl. 18:00 – dagskrá lýkur þriðjudaginn 1. október kl. 12:00.

Nánari áætlun og upplýsingar um starfið í vetur verða kynntar á fundunum 25. ágúst / 1. september og á vefnum egilsstadakirkja.is / egilsstadaprestakall.is.

Hægt verður að velja um eftirfarandi fermingardaga vorið 2025:

Áskirkja í Fellum: 1. júní (sjómannadagurinn) og 15. júní 2025 kl. 11:00

Egilsstaðakirkja: 17. apríl (skírdagur) og 8. júní (hvítasunnudagur) 2025 kl. 10:30

Aðrar kirkjur: Eftir samkomulagi við prest. Ath! Miðað er við að ein fermingarathöfn sé í boði í hverri af öðrum kirkjum prestakallsins.

Fermingarfræðslugjald: U.þ.b. 25.000 kr., nánar tilkynnt í haust.

Kostnaður við fermingarbúðir á Eiðum: kr. 11.500 fyrir fermingarbörn sem skráð eru í þjóðkirkjuna (fullt verð kr. 15.000, þjóðkirkjusöfnuðirnir niðurgreiða fyrir sitt fólk) – innifalið fæði og gisting í tvær nætur.

Ef þið fjölskyldan viljið taka þátt í fræðslunni og ferma barnið ykkar þarf að skrá það hér. Allar nánari upplýsingar hjá prestunum.

Kærleikskveðjur,

Kristín Þórunn Tómasdóttir s. 862 4164 (kristin.tomasdottir@kirkjan.is)

Sigríður Rún Tryggvadóttir, s. 698 4958 (sigridur.run.tryggvadottir@kirkjan.is)

Þorgeir Arason s. 847 9289 (thorgeir.arason@kirkjan.is)

Tónleikum Kórs Egilsstaðakirkju frestað

Vortónleikum Kórs Egilsstaðakirkju, sem vera áttu sunnudaginn 5. maí, er FRESTAÐ vegna veikinda. Ný dagsetning auglýst síðar!

Vorhátíð barnastarfsins

Egilsstaðakirkja 50 ára

Þann 16. júní n.k. eru 50 ár frá því að Egilsstaðakirkja var vígð. Af því tilefni verður efnt til ýmissa viðburða, m.a. ljósmyndasýningar í Sláturhúsinu. Við leitum að myndum og minningarbrotum sem tengjast kirkjunni síðustu 50 árin. Kíkið í myndaalbúmin og gáið hvort ekki leynist skemmtilegar myndir frá eftirminnilegum stundum, vígsla kirkjunnar, ferming yngsta barnsins, gifting foreldranna, skírn, sálmaskrár, jólatónleikar…Og svo framvegis. Efni sendist á sigridur.run.tryggvadottir@kirkjan.is fyrir 20. maí.

Helgihald og héraðsfundur 28. apríl

Sunnudagurinn 28. apríl, fjórði sunnudagur eftir páska:

Sunnudagaskólinn í Safnaðarheimili Egilsstaðakirkju kl. 10:30. Þetta verður síðasti „venjulegi“ sunnudagaskólinn okkar í vetur, því að þann 5. maí lýkur barnastarfi vetrarins með vorhátíð í Kirkjumiðstöðinni við Eiðavatn.

Kvöldmessa í Egilsstaðakirkju kl. 20:00. Sr. Þorgeir Arason predikar og þjónar fyrir altari ásamt Jónasi Þór Jóhannssyni meðhjálpara og lesurum. Organisti Sándor Kerekes. Kór Egilsstaðakirkju syngur. Fögnum sumri í bæn og lofsöng, þökkum Guði alla blessun og leggjum sumarið framundan í Guðs hendur. Verum öll velkomin. (Myndina af kirkjuturninum tók Unnar Erlingsson.)

Héraðsfundur Austurlandsprófastsdæmis fer fram í Kirkjumiðstöðinni við Eiðavatn 28. apríl kl. 10-17. Sjá nánar hér.

Guðsþjónusta á Sumardaginn fyrsta

Verum innilega velkomin í KIRKJUSELIÐ okkar í Fellabæ, kl. 14, á Sumardaginn fyrsta. Við fögnum sumri og syngjum fallega sumarsálma. Við minnumst einnig þjónustu sr. Jóhönnu Ingibjargar Sigmarsdóttur sem hefði orðið áttræð þennan dag, 25. apríl.

Fjölskylda sr. Jóhönnu býður í kirkjukaffi eftir stundina og fyrir það erum við þakklát.

Takk fyrir veturinn og Guð gefi okkur gleðilegt sumar!

Aðalsafnaðarfundur Ássóknar

Aðalsafnaðarfundur Ássóknar verður haldinn í KIRKJUSELINU FELLABÆ þriðjudaginn 23. apríl kl. 20. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf skv. 4. gr. starfsreglna um söfnuði og sóknarnefndir.

Fundurinn hefur verið auglýstur eins og lög gera ráð fyrir og á hann eru öll sóknarbörn velkomin.

Sunnudagurinn 21. apríl

Helgihald 21. apríl, sem er 3. sunnudagur eftir páska:

Sunnudagaskóli í Safnaðarheimili Egilsstaðakirkju kl. 10:30. Umsjón sr. Þorgeir, Sándor, Guðný og Ragnheiður og auðvitað mætir Rebbi refur á svæðið!

Gospelmessa í Bakkagerðiskirkju (Borgarfirði) kl. 20:00. Stund á léttum nótum í anda upprisu, gleði og vonar. Sr. Þorgeir Arason og Sándor Kerekes við hljóðfærið leiða stundina.

Góði hirðirinn í Egilsstaðakirkju

Sunnudaginn 14. apríl verður Góða-hirðis messa í Egilsstaðakirkju kl. 20. Við íhugum og syngjum um hirðishlutverk Jesú um leið og við njótum birtu páskatímans. Sr. Kristín, Sándor, kirkjukórinn og Nunna Maja þjóna. Innilega velkomin!

Sunnudagaskólinn er á sínum stað kl. 10.30 í safnaðarheimilinu. Allir krakkar og vinir þeirra velkomin.