
Árleg messa í Klyppstaðarkirkju

Árleg sumarmessa í Klyppstaðarkirkju verður að þessu sinni sunnudaginn 17. júlí kl 14. Bakkasystur ætla að leiða okkur í almennum söng.
Sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir prédikar og þjónar fyrir altari ásamt sr. Sigríði Rún Tryggvadóttur og sr. Jóhönna Sigmarsdóttur, fv prófasti og sóknarpresti. Meðhjálpari er Kristjana Björnsdóttir.
Eftir messu er boðið upp á kaffi og meðlæti í skála ferðafélags Fljótsdalshéraðs.
Athugið að það þarf að áætla um 1,5 klst. akstur frá Borgarfirði eystra. Vegurinn er aðeins fær fjórhjóladrifnum bílum og gott er að fjölmenna í bílana. Messan á Klyppstað hefur að jafnaði verið vel sótt af ferðafólki og úr nágrannabyggðum.
Prestur sat á Klyppstað til ársins 1888. Eftir það var staðnum þjónað frá Dvergasteini og síðar Seyðisfirði. Sú kirkja sem þar stendur nú var byggð 1895, yfirsmiður var Jón Baldvin Jóhannesson, bóndi í Stakkhlíð. Kirkjan er friðað hús og hefur ekki verið afhelguð. Fyrri hluta 20. aldar var blómleg byggð í Loðmundarfirði. Um aldamótin 1900 voru þar 87 íbúar. Byggð lagðist þar af um 1973.
Helgihald 2.-3. júlí
Hofteigskirkja á Jökuldal
Laugardagurinn 2. júlí: Messa kl. 14:00 – Ferming. – Sr. Þorgeir Arason. Organisti Jón Ólafur Sigurðsson.
Egilsstaðakirkja
Sunnudagurinn 3. júlí: Guðsþjónusta kl. 10:30 – Organisti kvaddur:
Guðsþjónustan verður í Egilsstaðakirkju (ekki í Selskógi eins og til stóð – óhagstæð veðurspá). Torvald Gjerde organisti leikur undir almennum söng og prestar Egilsstaðaprestakalls þjóna. Þetta verður síðasta guðsþjónusta Torvalds sem organisti Egilsstaðakirkju eftir yfir 20 ára starf og verður hans framlag þakkað sérstaklega við þetta tilefni. Veitingar í Safnaðarheimilinu að messu lokinni. Verið velkomin!
Áskirkja í Fellum
Sunnudagurinn 3. júlí: Messa kl. 14:00 – Innsetning prests
Sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir, prófastur á Austurlandi, setur sr. Kristínu Þórunni Tómasdóttur inn í embætti prests í Egilsstaðaprestakalli með sérstakar skyldur við Ássókn. Sr. Kristín Þórunn predikar og þjónar fyrir altari ásamt prófasti, sr. Þorgeiri Arasyni sóknarpresti og sr. Árna Svani Daníelssyni, eiginmanni sínum. Kór Áskirkju syngur. Organisti: Jón Ólafur Sigurðsson. Meðhjálpari: Bergsteinn Brynjólfsson. Lesari: Kristófer Hilmar Brynjólfsson. Að messu lokinni býður sóknarnefnd Ássóknar í kaffisamsæti í Kirkjuselinu Fellabæ. Verið velkomin!
Viðburðir framundan
Egilsstaðakirkja
Tónlistarstundir:
Þriðjudaginn 28. júní kl. 20:00: Hallveig Rúnarsdóttir, sópran, Þorbjörn Rúnarsson, tenór, og Hrönn Þráinsdóttir, píanó. Enginn aðgangseyrir.
Fimmtudaginn 30. júní kl. 20:00. Íva Þórarinsdóttir, messósópran, og Sjur Magnus, píanó og orgel. Enginn aðgangseyrir.
Egilsstaðakirkjugarður
Sjálfboðavinnudagur verður í kirkjugarðinum laugardaginn 25. júní frá kl. 10:00
Bæjarbúar hvattir til að mæta og leggja á hönd á plóg við að snyrta og fegra kirkjugarðinn okkar!
Boðið verður upp á hádegishressingu í Safnaðarheimilinu.
Þau sem hafa tök á eru hvött til að taka með sér málningarpensla eða garðverkfæri.
Fjölbreytt verkefni fyrir unga sem aldna!
Sóknarnefnd Egilsstaðasóknar
Sleðbrjótskirkja
Messa sunnudaginn 26. júní kl. 15:00. Ágúst Bragi Daðason verður fermdur í messunni.
Sr. Þorgeir Arason þjónar. Organisti Jón Ólafur Sigurðsson. Kór Kirkjubæjar- og Sleðbrjótskirkna. Meðhjálpari Margrét Dögg Guðgeirsdóttir Hjarðar. Verið velkomin!
Vallaneskirkja
Tónlistarstundir:
Fimmtudaginn 23. júní kl. 20:00. Øystein Magnús Gjerde og Veronica Eres, klassískur gítar. Enginn aðgangseyrir.
Sunnudaginn 26. júní kl. 20:00. Hlín Pétursdóttir Behrens, sópran, og Hrólfur Vagnsson, harmonika. Enginn aðgangseyrir.
Sjómannadagurinn, 12. júní
Við óskum sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn.

Bakkagerðiskirkja
Á sjómannadaginn er að vanda guðsþjónusta á Borgarfirði kl. 11:00. Vegna veðurspár verður sjómannadagsmessan í Bakkagerðiskirkju að þessu sinni (ekki við höfnina).
Prestur Þorgeir Arason. Organisti Jón Ólafur Sigurðsson. Bakkasystur syngja. Meðhjálpari Kristjana Björnsdóttir. Verið velkomin!
Seyðisfjarðarkirkja
Á sjómannadag er kvöldguðsþjónusta kl 20.00
Hátíðarræðu flytur Tryggvi Gunnarsson. Sjómannsfrúr lesa ritningalestra.
Kór Seyðisfjarðarkirkju leiðir almennan safnaðarsöng. Organisti er Rusa Petriashvili.
Útskrift úr Leiðtogaskóla Kirkjunnar.
Prestur er Sigríður Rún Tryggvadóttir og meðhjálpari er Jóhann Grétar Einarsson
Kaffi og konfekt í safnaðarheimili eftir messu.
Hvítasunnudagur, 5. júní
Hvítasunnan er ein af þremur stórhátíðum kristinnar kirkju. Þá er þess minnst þegar heilagur andi Guðs kom yfir vini Jesú, sem hófu að boða mörgum góðu fréttirnar um Jesú og kirkjan var stofnuð.
Helgihald í Egilsstaðaprestakalli á hvítasunnudag, 5. júní 2022:
Áskirkja Fellum:
Hátíðarmessa – ferming kl 14:00.
Organsti Drífa Sigurðardóttir. Prestur sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir.
Egilsstaðakirkja:
Hátíðarmessa – ferming kl. 10:30.
Sr. Þorgeir Arason predikar og þjónar fyrir altari ásamt Berglindi Hönnudóttur fræðslufulltrúa og sr. Vigfúsi I. Ingvarssyni. Meðhjálpari Ástríður Kristinsdóttir. Organisti Torvald Gjerde. Kór Egilsstaðakirkju.
Seyðisfjarðarkirkja:
Hátíðarmessa – ferming kl. 11:00.
Prestur sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir. Kór Seyðisfjarðarkirkju syngur. Organisti Rusa Petriashvili.
Fermingarskeyti kirkjunnar til sölu í safnaðarheimilinu fös 3. júní kl 15-17. Eða í síma 8932783.
Verið velkomin til kirkju!
Útvarpsmessa frá Egilsstaðakirkju
Sunnudaginn 22. maí útvarpaði Rás 1 guðsþjónustu frá Egilsstaðakirkju sem tekin var upp á dögunum. Upptakan er aðgengileg hér.
Vert er að nefna að Elke Schnabel lék á trompet í guðsþjónustunni en nafn hennar féll því miður niður í dagskrárkynningu. Einnig misritaðist nafn Jónasar Þórs Jóhannssonar sem flutti ávarp og bæn í upphafi.