Aðventuhátíð frestað í Skriðdalnum

Vegna fjölgunar smita í samfélaginu hér á Héraði hefur aðventuhátíð Þingmúla- og Vallanessókna, sem vera átti á Arnhólsstöðum laugardaginn 4. desember, verið frestað um óákveðinn tíma.

Sunnudagaskólinn verður þó á sínum stað í Egilsstaðakirkju annan sunnudag í aðventu, 5. desember kl. 10:30, en allar sóttvarnaráðstafanir viðhafðar. Grímuskylda fullorðinna og hressingin í lokin fellur niður eins og undanfarna sunnudaga.

Guð gefi okkur góða helgi og blessaðan annan sunnudag í aðventu.

Á döfinni

Viðburðir á döfinni í Egilsstaðaprestakalli:

5. desember, annar sunnudagur í aðventu:

Egilsstaðakirkja: Sunnudagaskóli kl. 10:30.

Seyðisfjarðarkirkja: Sunnudagaskóli kl. 11:00.

7. desember, þriðjudagur:

Egilsstaðakirkja: Aðventustundir fermingarbarna og fjölskyldna þeirra kl. 18:00 og kl. 20:00.

8. desember, miðvikudagur:

Bakkagerðiskirkja: Aðventukvöld kl. 20:00.

12. desember, þriðji sunnudagur í aðventu:

Egilsstaðakirkja: Jólastund sunnudagaskólans kl. 10:30 – Heitt súkkulaði og piparkökur.

13. desember, mánudagur:

Áskirkja í Fellum: Aðventustund / Jólasálmakvöld kl. 20:00.

Aðventustund í Sleðbrjótskirkju verður eingöngu í streymi að þessu sinni og verður deilt hér á síðunni u.þ.b. 10. desember.

Aðventuhátíð Eiða- og Hjaltastaðarsókna verður send út á fjórða sunnudegi í aðventu 19.desember.

Aðventuhátíð Þingmúla- og Vallanessókna, sem vera átti á Arnhólsstöðum í Skriðdal 4. des. kl. 15:00, er frestað um óákveðinn tíma.

Aðrir viðburðir verða auglýstir eftir því sem aðstæður og samkomutakmarkanir leyfa.

Sr. Brynhildur og Dóra djákni leysa af

Í lok október lét sr. Ólöf Margrét Snorradóttir af störfum sem prestur í Egilsstaðaprestakalli og flutti á Akranes þar sem hún þjónar nú í Garða- og Saurbæjarprestakalli. Þar sem ráðningabann er í gildi innan Þjóðkirkjunnar til áramóta er nú gert ráð fyrir að auglýst verði eftir nýjum presti í janúar og tæki sá til starfa að vori 2022.

Þangað til verður afleysingaþjónusta í Egilsstaðaprestakalli:

Sr. Brynhildur

Sr. Brynhildur Óla Elínardóttir hefur þegar tekið til starfa og er í fullu starfi í Egilsstaðaprestakalli til áramóta. Frá 1. janúar 2022 verður hún svo í 50% starfi hjá okkur fram á vor. Sr. Brynhildur, sem er fædd 1964 og er frá Merki á Jökuldal, vígðist til Skeggjastaða í Bakkafirði árið 1996 og þjónaði þar lengi en er nú sérþjónustuprestur á vegum Biskupsstofu og leysir af víða um land. Hægt er að ná í sr. Brynhildi í síma 864-7525.

Dóra Sólrún

Dóra Sólrún Kristinsdóttir, djákni, verður líkt og Brynhildur í 50% starfi í Egilsstaðaprestakalli frá 1. janúar 2022 fram á vor. Dóra er fædd 1955 en vígðist sem djákni í Langholtskirkju árið 2014 og starfaði einnig sem djákni í Árbæjarkirkju. Hún er nú búsett á Reyðarfirði þar sem hún er starfandi námsráðgjafi. Hægt verður að ná í Dóru í síma 898-0028.

Sr. Brynhildur og Dóra Sólrún munu sinna margvíslegri kirkjulegri þjónustu sem sr. Ólöf hafði áður með höndum, t.d. barnastarfi og öðru safnaðarstarfi Ássóknar í Kirkjuselinu í Fellabæ, samveru- og bænastundum með eldri borgurum í Hlymsdölum og víðar, reglulegri viðveru prests í Fljótsdal og sorgarhóp, auk sálgæslu, helgihalds og athafna.

Egilsstaðaprestakalli er að jafnaði þjónað með þremur stöðugildum vígðra þjóna, og sem fyrr starfa sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir og sr. Þorgeir Arason einnig áfram í prestakallinu.

Sorgin og jólin – Samvera 24. nóvember

Aðventan og jólin reynast mörgum erfiður tími sem misst hafa fjölskyldumeðlim eða vin. Að vanda bjóða þjóðkirkjusöfnuðir á Héraði til samveru undir yfirskriftinni „Sorgin og jólin“ þar sem fjallað er um sorgina og aðventu/jólahald í skugga ástvinamissis. Samveran verður í Kirkjuselinu í Fellabæ á miðvikudaginn, 24. nóvember kl. 20:00.

Dóra Sólrún Kristinsdóttir djákni talar um efnið. Dóra hefur starfað sem djákni í Langholtskirkju og Árbæjarkirkju í Reykjavík en er nú búsett á Reyðarfirði þar sem hún er starfandi námsráðgjafi við grunnskólann. Dóra hefur mikla reynslu af að ræða við syrgjendur og stýra sorgarhópum og mun tala til okkar bæði út frá eigin reynslu og af sjónarhóli sálgæslufræðanna.

Drífa Sigurðardóttir og sönghópur úr Kór Áskirkju flytja fallega tónlist. Kveikt verður á kertum í minningu látinna. Prestar Egilsstaðaprestakalls leiða stundina.

Kaffisopi og umræður í lokin.

Samveran er einkum ætluð þeim sem misst hafa ástvini á árinu, eða á undanförnum árum, en öll þau sem láta sig málið varða eru innilega velkomin. Heildarfjöldi viðstaddra getur þó ekki orðið meiri en 50 og öllum sóttvarnareglum er að sjálfsögðu fylgt.

Fyrsti sunnudagur í aðventu

Viðburðir á fyrsta sunnudegi í aðventu, 28. nóvember 2021, í Egilsstaðaprestakalli:

Seyðisfjarðarkirkja:

Fjölskylduguðsþjónusta kl. 11:00. Biblíusaga, kirkjubrúður og mikill söngur. Sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir leiðir stundina. Kór Seyðisfjarðarkirkju og organisti er Rusa Petriashvili.

Egilsstaðakirkja:

Sunnudagaskóli kl. 10:30. Við tendrum fyrsta aðventuljósið og Mýsla og Rebbi láta sig ekki vanta. Sr. Þorgeir, Torvald og Elísa leiða stundina. (Ath. þennan dag verður venjulegur sunnudagaskóli í Egilsstaðakirkju, fjölskylduguðsþjónusta með þátttöku barnakórsins bíður betri tíma.)

Aðventa með Schubert“ kl. 17:00. Kammerkór Egilsstaðakirkju og hljómsveit heimamanna, undir stjórn Torvalds Gjerde, flytja saman messu nr. 4 eftir Franz Schubert, ásamt öðru fallegu aðventu- og jólaefni, í Egilsstaðakirkju, sunnudaginn 28. nóv. kl. 17.00. Aðgangseyrir er 2.500 kr, 1.500 kr fyrir eldri borgara, öryrkja og námsmenn, frítt fyrir börn. Enginn posi er á staðnum. ATH! Allir tónleikagestir þurfa að sýna neikvættcovid-hraðpróf við komu og bera grímur. Opið verður í „Blómabæ“ á sunnudeginum (tónleikadeginum) kl. 11.30-12.30 (hægt verður komast í hraðpróf þann dag til kl. 13.30 fyrir þá sem ekki komast á auglýstum tíma hraðprófa). Tónleikarnir eru styrktir af Uppbyggingarsjóði Austurlands.

Athugið að fyrirhuguðum aðventuhátíðum í Eiðakirkju (átti að vera 28. nóv.), Kirkjuselinu Fellabæ (átti að vera 1. des.) og Sleðbrjótskirkju (átti að vera 2. des.) er öllum frestað – nánar auglýst síðar.

Sunnudagurinn 21. nóvember

Seyðisfjarðarkirkja:

Sunnudagaskólinn kl. 11:00.

Egilsstaðakirkja:

Sunnudagaskólinn kl. 10:30.

Messa kl. 14:00.

Sr. Brynhildur Óladóttir predikar og þjónar fyrir altari. Kór Egilsstaðakirkju. Organisti Torvald Gjerde.

Öllum sóttvarnareglum fylgt við athafnir. Fullorðnir nota grímu eða halda góðri fjarlægð frá næsta manni, 50 manna fjöldatakmörkun og sprittið er á sínum stað.

Verið velkomin til kirkju!

Sorgin og jólin – Samvera 24. nóv.

Sorgin og jólin: Árleg samvera um sorgina og aðventu/jólahald í skugga ástvinamissis verður í Kirkjuselinu í Fellabæ miðvikudaginn 24. nóvember kl. 20:00.

Photo by Pixabay on Pexels.com

Dóra Sólrún Kristinsdóttir djákni talar um efnið. Drífa Sigurðardóttir og sönghópur úr Kór Áskirkju flytja fallega tónlist. Prestar Egilsstaðaprestakalls leiða stundina. Kveikt á kertum í minningu látinna. Kaffisopi og umræður í lokin.

Verið velkomin – Öllum sóttvarnareglum fylgt.

Sunnudagaskóli 14. nóvember

Sunnudaginn 14. nóvember verður sunnudagaskólinn á sínum stað bæði í Egilsstaðakirkju kl. 10:30 og Seyðisfjarðarkirkju kl. 11:00. Við munum fylgja öllum gildandi Covid-reglum, foreldrar eru beðnir að nota grímu og í varúðarskyni bjóðum við ekki upp á hressingu í lokin að þessu sinni.

Fyrirhugaðri gospelsamkomu í Egilsstaðakirkju og fyrirhugaðri guðsþjónustu í Kirkjuselinu í Fellabæ, sem áttu að vera sunnudag, er báðum aflýst.

Guð gefi ykkur góða og blessaða helgi!

Fjölbreytt helgihald sunnudaginn 31. október

Sunnudagaskóli í Egilsstaðakirkju kl. 10.30. Biblíusaga, kirkjubrúður og mikill söngur. Ávextir, djús og litamyndir eftir stundina.

Sunnudagaskóli í Seyðisfjarðarkirkju kl. 11.00. Biblíusagan um örkina hans Nóa. Það má mæta í búningum og bangsar eru velkomnir. Auðvitað er svo mikill söngur.  Kaka, djús og litamyndir í safnaðarheimili eftir stundina. 

Í Vallaneskirkju er ljósastund / Allra heilagra messa kl. 20 og látinna minnst. Organisti er Torvald Gjerde og kór Þingmúla- og Vallanesirkju syngur. Prestur er sr. Þorgeir Arason. Björg Björnsdóttir les eigin ljóð.

Í Seyðisfjarðarkirkju er allra heilagra messa kl 20. Kveikt á kertum í minningu látinna ástvina. Kór Seyðisfjarðarkirkju leiðir almennan safnaðarsöng. Kórstjóri og organisti er Rusa Petriashvili. 
Fermingarbörn þjóna í stundinni. Prestur er sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir og meðhjálpari Jóhann Grétar Einarsson.

Ath. Næsta messa í Bakkagerðiskirkju verður bleik messa þann 7. nóvember kl. 14 (engin messa 31. október í Bakkagerðiskirkju eins og áður var auglýst).

Verið velkomin í fjölbreytt helgihald í kirkjunum okkar.

Helgihald 24. október

Egilsstaðakirkja:

Sunnudagaskólinn kl. 10:30

„Bleik messa“ kl. 20:00.

Kvöldmessa í léttum dúr en með alvarlegum undirtóni þar sem stundin er helguð árvekniátaki gegn krabbameini. Reynslusaga: Auður Vala Gunnarsdóttir. Prestur: Þorgeir Arason. Kór Egilsstaðakirkju og Torvald Gjerde við flygilinn leiða tónlistina. Kaffisopi eftir messu – Frjáls framlög til Krabbameinsfélags Austurlands. Verið velkomin – ekki spillir að mæta í bleiku!

Seyðisfjarðarkirkja: Sunnudagaskólinn kl. 11:00

%d bloggurum líkar þetta: