Eiríksstaðasókn

Eiríksstaðakirkja-500x364

Sóknarnefnd
Aðalsteinn Ingi Jónsson, varamaður
Bragi S. Björgvinsson, varamaður
Gréta Dröfn Þórðardóttir, sóknarnefndarmaður
Halla Eiríksdóttir, sóknarnefndarmaður
Kristrún Pálsdóttir, varamaður
Sigvaldi H. Ragnarsson, formaður

Um Eiríksstaðakirkju:
Eiríksstaðakirkja er byggð að mestu árið 1913. Sr. Haraldur Þórarinsson vígði hana 21. júní, árið 1914 og fermdi um leið fimm börn. Uppsteypingu hennar stjórnaði Guðmundur Þorfinnsson á Litla-Steinsvaði en við hana unnu einnig m.a. Sigurður Magnússon, trésmiður á Valþjófsstað, og Einar Eiríksson, hreppsstjóri á Eiríksstöðum. Bændur fluttu sementið á sleðum frá Vopnafirði.

Eiríksstaðakirkja er með elstu steinhúsum á Héraði og elsta steinsteypta kirkja í fyrrum Múlaprófastsdæmi. Tröppur fram af dyrum voru steyptar strax en gólf var fyrrum úr timbri en síðar steypt. Tveir, stórir járngluggar eru á hvorri hlið kirkjunnar og ferstrendur turn með píramíðaþaki er yfir vesturenda hennar og trékross upp af honum. Hvelfing er yfir allri kirkjunni. Bárujárn hefur verið á þaki alla tíð.

Upphaflega átti kirkjan tvær, mjög litlar, klukkur úr Brúarkirkju sem voru seldar Forngripasafninu. Lítil klukka var fengin frá Valþjófsstaðarkirkju. Önnur stærri klukka er í turni, áletruð: TIL HALLORMSTADKIRKE BEKOSTET AF SR° MAGNUS GUDMUNDSEN Ao 1744.

Altarið og predikunarstóllinn eru úr gömlu kirkjunni á Brú. Meðal gripa kirkjunnar eru kaleikur og patína (oblátudiskur) úr tini og á botni patínunnar er ártalið 1780. Kirkjan hefur á liðnum árum fengið góðar gjafir frá velunnurum sínum, svo sem altarisdúk, altarisklæði, ljósahjálm og hökul.

Í kirkjunni er lítið, ítalskt (Ahlborn) rafmagnsorgel, en gamla hljóðfærið mun nú í Brúarási. Fyrsti organistinn var Jón G. Snædal á Eiríksstöðum.

Á síðari hluta 20. aldar er ástand Eiríksstaðakirkju orðið slæmt og steypan t.d. mikið sprungin. Viðgerðir drógust þó enda ekki auðveldar á þeim árum og fjármunir varla legið á lausu. Á 9. áratugnum var farið að huga markvisst að lausn kirkjumálanna í Eiríksstaðasókn. Eftir kostnaðarathugun, sem sýndi að ámóta dýrt væri að byggja nýja kirkju og að gera við þá eldri, var ákveðið á safnaðarfundi 3. maí 1987 að byggja nýja kirkju úr timbri eftir fyrirliggjandi teikningum.

Meiri áhugi reyndist þó fyrir því að gera við kirkjuna en fram kom á þessum fundi, ekki síst á meðal brottfluttra sóknarbarna. Leitað var til Þjóðminjavarðar um úttekt á varðveislugildi kirkjunnar og niðurstaða þeirrar úttektar var að leggja til að gert yrði við kirkjuna. Málalyktir urðu þær að kirkjan var endurgerð á árunum 1993-´94 og stjórnaði Aðalsteinn J. Maríusson, múrarameistari á Sauðárkróki, verkinu en ýmsir sóknarmenn unnu að því og þáverandi sóknarnefndarformaður, Karl Jakobsson, fylgdi málum fast eftir. Nú er Eiríksstaðakirkja hinn fegursti helgidómur og hefur verið vel við haldið frá endurgerðinni t.d. eikarmálaði Snorri S. Guðvarðsson tréverk inni í kirkjunni árið 2011.

Fyrir daga Eiríksstaðakirkju var bænhús á Brú sem gert var að sóknarkirkju árið 1844 fyrir bæi í Hrafnkelsdal, sem tilheyrt höfðu Valþjófsstað, og Brú og Eiríksstaði. Gamli kirkjugarðurinn á Brú er nú trjágarður. Bænhús var einnig í kaþólskri tíð á Eiríksstöðum og á Hákonarstöðum sbr. Bænhúshól. Þjóðsögur segja að fyrir tíma Brúarkirkju hafi kirkjan verið á Bakkastað, austan Jöklu, vestan undir Vaðbrekkuhálsi nokkru innar en á móts við Brú, en hún á að hafa sokkið við dans í henni á jólanótt. Sagt er að þarna hafi mótað fyrir kirkjugarði um aldamótin 1900.

Í upphafi þjónuðu Hofteigsprestar Brúarkirkju. Árið 1892 fluttust aðrir bæir á Efra-Dal, Hákonarstaðir, Grund og Klaustursel, frá Hofteigssókn til Brúarsóknar ásamt Víðirhólum (Veturhúsum) og Sænautaseli. Eftirtalin heiðarbýli tilheyrðu frá upphafi Brúarsókn og áttu svo kirkjusókn í Eiríksstaði (þau sem voru í byggð er kirkja reis þar): Heiðarsel, Grunnavatn, Háls og Hneflasel.

Heiðarbýlin eru nú öll komin í eyði, síðast Heiðarsel árið 1946. Langt var til kirkju frá mörgum heiðarbýlanna en víða greiðfært. Eyþór Guðmundsson minnist árlegrar kirkjuferðar á sumrin í Eiríksstaði á uppvaxtarárum sínum í Sænautaseli.

Kirkjugarðurinn, spölkorn vestur og upp af kirkjunni, er frá sama tíma og kirkjan.

Í fyrstu var settur kross á vegg yfir altari en árið 1954 málar Jóhann Briem listmálari hina fögru altaristöflu, Páskakvöld, fyrir Eiríksstaðakirkju. Hún sýnir Emmausfarana (Lúk 24.13.-35, sjá grein Gunnars Kristjánssonar í jólablaði Glettings1992) og var greidd af sjóði Kvenfélagsins (gamla).

Heimildir:
Vigfús Ingvar Ingvarsson, 2011: Kirkjur og kirkjugöngur í Múlaprófastsdæmi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: