Egilsstaðakirkjugarður

Umhirðu í Egilsstaðakirkjugarði er sinnt í verktöku sumarið 2020. Sóknarnefnd Egilsstaðasóknar er jafnframt stjórn Egilsstaðakirkjugarðs. Grafartöku og frágang leiða eftir greftrun annast Kjartan Reynisson, sími 893-2730.

Eftirfarandi þjónusta er aðstandendum að kostnaðarlausu:
1. Bæta í mold á leiði sem hafa sigið og tyrfing þeirra
2. Tyrfing og jöfnun nýlegra leiða
3. Ganga frá leiðum eftir uppsetningu minnismarka.
4. Setja sand eða fína möl inn í steypta reiti aðeins. Getur dregist í nokkrar vikur.
Önnur umhirða leiða er í umsjón aðstandenda.

Reglur um umgengni í Egilsstaðakirkjugarði

1. gr.
Reglur þessar taka til umgengni í Egilsstaðakirkjugarði. Kirkjugarðurinn er friðhelgur sbr. almenn hegningarlög. Í kirkjugörðum er sérhver hávaði eða ys bannaður. Öllum er frjáls för um kirkjugarðinn með þeim takmörkunum sem af þessum reglum leiðir.
2.gr.
Börn yngri en 12 ára mega eigi hafast þar við, nema í fylgd með fullorðnum, sem þá
bera ábyrgð á hegðun þeirra.
3.gr.
Í kirkjugörðum er bannað að fara um með hesta, hunda eða önnur dýr.
4.gr.
Enginn má vinna í görðunum, gegn gjaldi, nema undir eftirliti kirkjugarðsstjórnar.
5.gr.
Eigi má skilja eftir á leiðum eða götum garðsins; mold, jurtaleifar, eða nokkur annað,
sem óprýði, óþrifum eða truflun getur valdið. Allt slíkt skal setja í til þess ætluð ílát eða
á til þess ætlaða staði.
6.gr.
Kirkjugarðsstjórnin skal tilkynna lögreglu um mannsöfnuð sem eigi telst viðeigandi að
safnist saman í kirkjugarði.
7.gr.
Eigi má sá til eða gróðursetja neins staðar í kirkjugarðinum þær jurtir sem með
sjálfsáningu, rótarskoti eða á annan hátt offjölgar, þannig að hætta sé á að jurtirnar
breiðist út til annarra legstæða. Greinar og rætur jurta, runna og trjáa, sem gróðursett
hafa verið á legstæði mega ekki ná út fyrir mörk þess og þannig hindra umferð við
göngustíga og brautir kirkjugarðs eða skemma önnur legstæði.
8.gr.
Sái einhver eða gróðursetji slíkar jurtir, sem um ræðir í 7. gr., eða ef greinar jurta, runna
og trjáa hindra umferð við göngustíga og brautir kirkjugarðs, hefur kirkjugarðsstjórn
heimild til að útrýma viðkomandi plöntum, á kostnað þess sem gróðursetti þær. Ef ekki
er vitað hver gróðursetti viðkomandi plöntur, þá jafnvel á kostnað skráðra aðstandenda
viðkomandi legstæðis.
9.gr.
Ekki má, án leyfis kirkjugarðsstjórnar, fjarlæga af legstæðum minnismerki eða aðra
varanlega hluti.
10.gr.
Stjórn kirkjugarðsins ber eigi skaðabótaábyrgð á, þótt umbúnaður grafarstæðis,
minnismerki, gróður eða annað, sem á grafarstæði kann að vera, verði fyrir skemmdum
eða ónýtist af völdum náttúruafla eða skemmdarvarga.
11.gr.
Sá sem vill setja minnismerki á leiði eða duftreit skal leitast við að hafa stæði og útlit
slíkra merkja í samræmi við þær hefðir sem myndast hafa á því svæði kirkjugarðsins,
sem um er að ræða hverju sinni. Viðhald legsteina og minnismerkja er í umsjá
aðstandenda en hafa skal samráð um það við kirkjugarðsstjórn.
12.gr.
Frágangur minnismerkja skal vera svo traustur, að þau hvorki raski, né ýti til jarðvegi,
þótt gröf sé tekin við hlið þeirra.
13.gr.
Þegar minnismerki, umbúnaður grafar og þess háttar, er svo úr sér gengið og/eða
komið að falli, svo að af stafar hætta, eða er til óprýði, skal gera umráðamanni
grafarstæðisins aðvart. Beri það eigi árangur eða náist eigi til hans, má fjarlægja
umgerðina og /eða minnismerki. Skal það þá gert í samræmi við fyrirmæli 26. gr. laga
um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36 /1993.
14.gr.
Legstæði, sem verið hefur í óhirðu í 3 ár samfleytt, skal kirkjugarðsstjórnin láta tyrfa,
malbera eða gera aðrar ráðstafanir, sem auðvelda umhirðu þess. Skaðabætur skuli eigi
koma til rétthafa grafarstæðis, ef beita verður þessu ákvæði.
15.gr.
Þótt grafarfriðun sé útrunnin, skal eigi flytja uppistandandi minnismerki eða raska
umbúnaði legstæðisins, sé það í góðu ásigkomulagi.
16.gr.
Reglur þessar sem settar eru samkvæmt heimild í 51. gr. laga um kirkjugarða, greftrun
og líkbrennslu, nr. 36/1993, öðlast nú þegar gildi.
Svo samþykkt af stjórn Egilsstaðakirkjugarðs 3. maí 2018

 

Bréf til aðstandenda

Tilefni þessa bréfs er að votta aðstandendum dýpstu samúð og leiðbeina ykkur um umhirðu grafreitsins, uppsetningu minnismerkis og fleira tengt starfsemi garðsins.

Umhirða leiðis: Sláttur og hirðing á grasi á leiðum yfir sumartímann er í höndum  starfsmanns garðsins og ekki er tekið gjald fyrir þá þjónustu.

Blóm á leiði: Ef aðstandendur vilja gróðursetja sumarblóm á leiðið verða þeir að sjá um það sjálfir eða óska eftir að þeir sem rækta og selja blóm annist það.  Athugið að vökva þarf öðru hverju.

Slétta leiði: Starfsmaður garðsins sér um að slétta leiðið og tyrfa. Það er gert án beiðni og kostnaðar, eftir u.þ.b. ár frá greftrun.

Legsteinn og reglur: Þegar hugað er að legsteini, þarf að gæta þess að vissar reglur gilda um stærð minnismerkja. Steinsmiðir og sölumenn legsteina þekkja reglurnar og geta veitt nánari upplýsingar.

Girðingar og hellur: Ekki er leyfilegt að setja girðingar  eða hellur utan um leiði.

Gróðursetning: Ef fyrirhugað er að gróðursetja plöntur, tvíærar/fjölærar eða runna skal fylgja reglum kirkjugarðsins (sjá vef og skilti í garði).  Blómabeð á leiði eru að jafnaði 60×80 cm. að stærð.

Jólaskraut á leiðum: Þeir aðstandendur sem skreyta leiði ástvina sinna um jól og áramót eru vinsamlega beðnir að taka skrautið fyrir 1. febrúar, ef aðstæður leyfa. Ekki er æskilegt að skraut sé úr plasti, þ.e. vegna foks.  Þeir sem óska eftir að hafa ljósakross á leiði geta haft samband við Lionsklúbbinn Múla, sem sér um það.

Viðgerð á leiðum og minnismerkjum:  Vinna við að rétta legsteina eða gera við steypuskemmdir er í höndum aðstandenda.

Ef óskað er nánari upplýsinga um frágang eða umhirðu leiða, vinsamlega hafið samband við sóknarnefnd Egilsstaðakirkju sem jafnframt er kirkjugarðsstjórn, sjá http://www.egilsstadakirkja.is.

Með kveðju frá stjórn Egilsstaðakirkjugarðs.                              

%d bloggurum líkar þetta: