Möðrudalssókn

Möðrudalskirkja-333x500

Sóknarnefnd
Bergrún Arna Þorsteinsdóttir, formaður
Vernharður Vilhjálmsson, gjaldkeri

Um Möðrudalskirkju:
Möðrudalur er gamall kirkjustaður og í kaþólskum sið var kirkjan tileinkuð öllum heilögum. Árið 1894 var þar byggð timburkirkja, í stað torfkirkju með timburstöfnum, en hún stóðst ekki tímans tönn og var aflögð í kjölfar aftakaveðurs árið 1925.

Eftir seinna stríð hefst Möðrudalsbóndi, Jón Aðalsteinn Stefánsson, einsamall handa við að grafa fyrir kirkju í gamla kirkjugrunninum. Ýmislegt hindraði þó framgang kirkjubyggingarinnar. Árið 1947 hafði Jóni tekist að grafa grunninn og kaupa sement en timbur fékkst ekki til kirkjubyggingar. Ekki fékkst heldur styrkur úr Hinum almenna kirknasjóði þar sem hin aflagða kirkja var ekki formlega aðili að honum (átti enga innistæðu þar). Þrátt fyrir þetta hélt Jón áfram verkinu einn og grjótfyllti vandlega undir kirkjuna. Næsta ár steypti hann veggi og stafna, glerjaði glugga og kom þakinu á svo kirkjan varð nokkurn veginn fokheld. Smíðinni var svo lokið sumarið 1949 (loft þó gert síðar).

Fagmann þurfti Jón að kaupa, ásamt handlangara, til að múrhúða kirkjuna. Hann, Ásgeir Austmann, kom frá Akureyri og hafði m.a. múrhúðað Akureyrarkirkju. Annars vann Jón einn að kirkjusmíðinni, þó löngum með dreng með sér, en sóknarmenn steyptu með honum veggina. Stefán Pálsson málaði kirkjuna og gaf þá vinnu alla.

Skuldir eftir jarðarkaupin ollu því að Jón hófst ekki fyrr handa við byggingu kirkjunnar en raun bar vitni. Jón byggði kirkjuna Guði til dýrðar en tileinkaði hana minningu konu sinnar, Þórunnar Vilhjálmsdóttur Oddsen, sem látist hafði árið 1944. Hann hannaði Möðrudalskirkju sjálfur og sá hana svo skýrt í huganum að ekki þurfti uppdrætti.

Biskup Íslands, hr. Sigurgeir Sigurðsson, vígði kirkjuna við einkar hátíðlega athöfn, 4. september árið 1949, og sagt er að yfir 200 manns hafi verið viðstaddir. Um þá athöfn og smíði kirkjunnar má lesa í Kirkjuritinu, 1. hefti 1950 og í Gerpi, 8.-9. tbl. 1950.

Möðrudalskirkja er svipmikil og vönduð. Að innanmáli er hún um 5,3×4,4m. Sterkan svip á kirkjuna setur turnstöpullinn sem hýsir forkirkju og miðrými í turninum með tveim gluggum að framan og einum á suðurhlið. Inn af þessu rými er loft, fremst í kirkjunni, svo hún hýsir furðu marga. Efsta turnrýmið er góður útsýnisstaður og nálægt turnspírunni eru gluggar á alla vegu svo minnir á vitaturn. Nokkur munur er á ásýnd norður- og suðurhliðar sem hefur tígullaga glugga á forkirkju og mjóan, burstlaga glugga á miðhæð turns. Gluggarnir á kirkjuskipinu, tveir hvoru megin, eru einnig burstlaga að ofan. Krossmark er bæði á turni og upp af austurstafni. Kirkjunni hefur verið vel við haldið í áranna rás og er söfnuði sínum og kirkjubónda til sóma. Hún er vel búin að gripum og á 60 ára afmæli sínu, haustið 2009, bárust henni margar, góðar gjafir. Orgelharmóníum kirkjunnar er af gerðinni Hinkel.

Altaristöfluna málaði kirkjusmiðurinn. Eins og segir í upphafi Fjallræðunnar (Matt 5.1), settust lærimeistarar á dögum Krists þegar þeir kenndu sbr. orðið „predikunarstóll“.

Tvær hljómgóðar klukkur eru í turni, sú stærri, með áletruninni „Orion“, er gefin af Filippusi Ámundasyni í Reykjavík. Önnur eldri klukka er úr Möðrudalskirkju hinni gömlu en aðra eldri klukku kirkjunnar tók þjóðminjavörður í sína vörslu árið 1938.

Möðrudalur stendur hæst bæja á Íslandi, í 469 m h.y.s., og er ein víðlendasta jörð landsins. Á Fjöllum var talsverð byggð fyrr á öldum og í Möðrudal var prestssetur fram á 18. öld. Möðrudalur fór í eyði um tíma á fyrri hluta 18. aldar. Um Möðrudal má lesa í bók Halldórs Stefánssonar, Þættir úr sögu Möðrudals á Efra-Fjalli (Akureyri 1943, Þ.M. Jónsson gaf út). Eftir að Möðrudalur byggðist aftur á síðari hluta 18. aldar var kirkjunni ýmist þjónað frá Hofi, Skinnastað eða Hofteigi. Með bréfi kirkjumálaráðuneytisins danska árið 1851 er ákveðið að Möðrudalur verði útkirkja frá Hofteigi. Eftir stofnun Víðirhólssóknar, með konungsúrskurði árið 1859, eru aðeins Möðrudalur og Víðidalur í Möðrudalssókn auk heiðarbýlanna, Gestreiðarstaða, Fögrukinnar og Rangárlóns (Rangalóns). Möðrudalssókn féll svo árið 1880 undir nýtt prestakall, Fjallaþing, sem lagt var niður árið 1907 og fyrri skipan komst aftur á. Hofteigsprestakalli var þjónað frá Kirkjubæ, frá 1928 (sr. Sigurjón Jónsson frá Háreksstöðum) og frá Eiðum frá 1956 og fram á 7. áratuginn en um tíma skiptust Eiða- og Vallanesprestur á um að þjóna Möðrudal. Vallanesprestur var einn um að þjóna fyrrum Hofteigsprestakalli frá 1966-´70 er þessar sóknir færðust undir Valþjófsstað.

Efra-Dalsbæirnir, Brú, Eiríksstaðir og Hákonarstaðir áttu kirkjusókn að Möðrudal frá kaþólskri tíð og allt fram til 1716.

Um ferðaleiðir biskupa í vísitasíum til Austurlands má lesa í Sögu biskupsstólanna (Bókaútgáfan Hólar, 2006, bls. 192-197). „Örnefnin Biskupsöxl, Biskupsvörður og Biskupsháls bera þess vitni að meginleið Skálholtsbiskupa lá austan Jökulsár á Fjöllum milli Grímsstaða og Möðrudals“ (bls. 195). Sjá einnig grein Páls Pálssonar, „Biskupsvörður og fjórðungamörk“ í bókinni: Þjóðlíf og þjóðtrú – ritgerðir helgaðar Jóni Hnefli Aðalsteinssyni (Þjóðsaga 1998).

Heimildir:
Vigfús Ingvar Ingvarsson, 2011: Kirkjur og kirkjugöngur í Múlaprófastsdæmi.

Færðu inn athugasemd