Kirkjubæjarsókn

Kirkjubæjarkirkja-1-500x328

Sóknarnefnd
Birna Þórðardóttir, formaður

Helga Rún Steinarsdóttir, ritari

Jón Steinar Elísson, gjaldkeri

Ásmundur Þórarinsson, varamaður

Þórarna Gró Friðjónsdóttir, varamaður

Stefán Jónasson, varamaður

Organisti
Jón Ólafur Sigurðsson

Meðhjálpari og kirkjuvörður

Margrét Árnadóttir

Hringjari

Ásmundur Þórarinsson

Um Kirkjubæjarkirkju

Kirkjubæjarkirkja er næstelsta kirkja í Múlaprófastsdæmi og með elstu timburkirkjum landsins. Hana lét reisa sr. Jón Þorsteinsson, sem aðeins var þrjú ár á Kirkjubæ. Til að sjá um það verk fékk hann frænda sinn úr Mývatnssveit, Jón Jónsson frá Vogum, sem lært hafði smíðar í Kaupmannahöfn, og gaf síðar út merka sjálfsævisögu sína á ensku. Var kirkjan reist árið 1851 og unnu sjö manns kappsamlega að smíðinni, fyrir utan að hún lá niðri yfir sláttinn. Samt tókst að ljúka verkinu fyrir jól og kirkjan var vígð á jóladag þetta sama ár.

Þrátt fyrir góð rekaítök staðarins var megnið af timbrinu í kirkjuna keypt af sjö seljendum, mest þó frá Vopnafirði. Það timbur átti að flytja á Ker, sem er lending undan Landsenda við norðanverðan Héraðsflóann. Þegar það reyndist ekki unnt vegna illviðra var timbrinu skipað upp í Fagradal og menn úr sókninni drógu það á sjálfum sér yfir fjallið að Ketilsstöðum í Jökulsárhlíð.

Kirkjubæjarkirkja er einkar vandaður og reisulegur helgidómur sem margir gestir sækja árlega heim. Hún hefur ekki þurft mikið viðhald í áranna rás, en þakið var járnklætt árið 1915 og veggir 1929. Á níunda áratug síðustu aldar fóru þó fram nokkuð umfangsmiklar endurbætur á kirkjunni, í umsjá Auðuns H. Einarssonar, undir leiðsögn Þórs Magnússonar þjóðminjavarðar og Harðar Ágústssonar listmálara og í framhaldinu viðgerðir innandyra með tilstyrk Húsafriðunarnefndar. Lauk öllum viðgerðum fyrir 150 ára afmæli kirkjunnar árið 2001. Á undanförnum árum hefur svo Snorri Guðvarðarson málarameistari á Akureyri og Kristjana kona hans unnið að málningarvinnu innandyra í kirkjunni af mikilli list.

Kirkjubær mun hafa verið kirkjustaður frá upphafi kirkjuskipanar í landinu og þar sat prestur nær óslitið til 1956 er séra Sigurjón Jónsson hætti prestsskap. Síðan var sókninni lengi þjónað frá Eiðum og nú undanfarin ár frá Egilsstöðum.

Forðum var Kirkjubæjarkirkja helguð Maríu Guðsmóður og enn varðveitir kirkjan kaþólska hefð í formi þeirrar milligerðar á mörkum kórs og framkirkju, sem forðum afmarkaði hið allra helgasta rými hinna vígðu þjóna. Kórþil þetta var þó að nokkru fjarlægt á 20. öld.

Kirkjubæjarkirkja á margt góðra gripa og ber þar fyrstan að nefna predikunarstólinn, sem er talinn vera smíðaður skömmu eftir siðaskipti og vera elsti predikunarstóll, sem enn stendur í kirkju hérlendis. Á honum eru myndir af postulunum Pétri og Páli, Lúkasi guðspjallamanni, Davíð konungi og dönsku konungshjónunum.

Altaristaflan, sem sýnir Krist birtast Maríu Magdalenu við gröfina, er eftir Anker Lund og máluð 1894. Tvær eldri töflur fóru þá á Þjóðminjasafnið.

Hljóðfæri kirkjunnar, sem er norskt frá Brödrene Torkildsen, er hið upphaflega frá 1891. Fyrsti organistinn var Jón Snorrason í Dagverðargerði en hann lést árið 1894.

Kirkjan var guðshús íbúa í Jökulsárhlíð jafnframt Hróarstungu uns kirkja reis í Hlíðinni 1927 enda veglegt hús. (Heimild: Vigfús Ingvar Ingvarsson, 2011: Kirkjur og kirkjugöngur í Múlaprófastsdæmi).

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: