Þingmúlasókn

Þingmúlakirkja-500x333

Sóknarnefnd
Ásta Sigríður Sigurðardóttir, ritari
Jónína Zophóníasdóttir, formaður
Magnús Karlsson, gjaldkeri
María Kristjánsdóttir, varamaður
Óskar M. Alfreðsson, varamaður

Organisti
Torvald Gjerde

Meðhjálpari og kirkjuvörður
Ásta Sigríður Sigurðardóttir
Sigurbjörn Árnason

Um Þingmúlakirkju:
Þingmúli er gamall kirkjustaður og prestsetur til 1892 er sameining við Vallanesprestakall kom til framkvæmda. Forn þingstaður og nafngjafi Múlasýslna. Yfir gnæfir Múlakollur en staðurinn fyrrum stundum aðeins nefndur Múli. Ólafskirkja forðum.

Sókninni var þjónað frá Hallormsstað árin 1869-´81 en þá kom aftur prestur í Þingmúla, sr. Páll Pálsson er fyrstur kenndi heyrnleysingjum hérlendis. Meðal annarra kunnra Þingmúlapresta skal nefndur sr. Bjarni Gissurarson (d. 1712), einn skáldprestanna austfirsku, barnabarn sr. Einars í Heydölum eins og sr. Stefán í Vallanesi.

Sr. Páll byggði núverandi kirkju árið 1886 og vígði sjálfur 1. sunnud. í aðventu. Yfirsmiður var Níels snikkari Jónsson er fór ári síðar til Ameríku. Hún er timburkirkja, panelþiljuð, 8,50×5,50 m, turnlaus með kór í fullri breidd kirkjunnar, járnklædd í áföngum frá 1907. Vandlega gerð upp á síðustu áratugum 20. aldar og sem næst upprunalegri gerð þó ekki með spónaþaki. Bætt var við skýli yfir dyrum sem merki fundust um að verið hefði. Tilsjón og aðstoð veitti Húsafriðunarnefnd og áður þjóðminjavörður og Bjarni Ólafsson lektor.

Sr. Páll var ekki ríkur að veraldarauði né kirkjan með digra sjóði er að kirkjubyggingu kom svo hann þurfti að veðsetja hana Otto Wathne á Seyðisfirði sem lagði til byggingarefnið. Þó ekki mæltist þetta vel fyrir hjá kirkjuyfirvöldum hlutust ekki vandræði af enda að fullu gert upp við Wathne tveimur árum síðar. Söfnuðurinn tók við fjárhaldi og umsjá kirkjunnar 17. júlí, 1927.

Hljóðfæri kemur fyrst í kirkjuna fyrir jólin 1923, gefið af söfnuðinum, og á þetta orgelharmóníum (Stolzenfels) er enn leikið við helgihaldið. Fram að þeim tíma hélst hin gamla sætaskipan í kirkjunni þar sem konur sátu norðanmegin og bændur sem leiddu sönginn, með forsöngvara, inni í kór. Fyrsti organistinn var Páll Einarsson, þá vinnumaður á Geirólfsstöðum, síðar bóndi í Eyrarteigi.

Þegar kirkja var lögð niður á Hallormsstað árið 1895 barst vegleg og nákvæm söngtafla frá 1802 í Þingmúlakirkju, talin sú elsta varðveitta hérlendis. Slíkar töflur fyrir sálmanúmer voru teknar upp í byrjun 19. aldar með tilkomu sálma- og messusöngsbókar Magnúsar Stephensen er fyrirskipaði sálma í stað fornra messuliða. (Sjá þó: Hlutavelta tímans, Þjóðminjasafnið, 2004, bls. 263).

Falleg altaristafla er í kirkjunni, eftir Þórarin B. Þorláksson, og sýnir Krist og bersyndugu konuna. Altarisklæði rautt með gylltum krossi á kirkjan, áletrað öðru megin kross: „P.Th.S.“ og hinumegin: „Th.G.D.MDCCL.XIV“ (1764), að líkindum nöfn sýslumannshjóna á Ketilsstöðum á Völlum, Péturs Þorsteinssonar og Þórunnar Guðmundsdóttur en hún lést 1764 á 44. aldursári.

Skírnarfontur, fagurlega útskorinn af Þórarni Stefánssyni frá Mýrum, var gefinn kirkjunni til minningar um systur hans Pálínu Fanneyju Stefánsdóttur, húsfreyju á Geirólfsstöðum.

Vandaðan rauðan hökul með gylltum krossi saumaði Ragnheiður Einarsdóttir á Hryggstekk.

Altari (frá 1869) og predikunarstóll eru úr kirkjunni á Hallormsstað og e.t.v. önnur tveggja klukkna. Óljóst er um uppruna bekkjanna sem voru eikarmálaðir.

Kirkjugarður er umhverfis kirkjuna með vönduðu sáluhliði að norðanverðu. Grjótgarður var hlaðinn með austurhluta garðsins sumarið 2005 og neðsti hluti garðsins síðar hækkaður og nýtt sáluhlið hefur verið smíðað (áður frá 1909) og vönduð, ný girðing er um garðinn. Hliðið smíðaði Gissur Árnason. Fyrir kirkjudyrum er leiði sr. Þorgríms Arnórssonar er var prestur í Þingmúla frá 1864 til dauðadags árið 1868. Við fótstall veglegs járnkross á leiðinu er hundslíkneski úr járni, gamalt tákn um tryggð. Sr. Þorgrímur var mikill fjárræktarmaður og átti góðan og einkar tryggan fjárhund. Heimagrafreitir eru á Stóra-Sandfelli, Borg, Þorvaldsstöðum og Mýrum.

Mýrar og Geirólfsstaðir tilheyrðu Hallormsstaðarsókn til 1895. Kirkjuvegur þaðan var yfir Hallormsstaðaháls (440 m y. sjó) en þar er Prestaflói sem hallar af til Skriðdals.

Stóra-Sandfell og Vað tilheyrðu Vallanessókn til ársins 1895 en á þessum bæjum voru forðum bænhús. Á Stóra-Sandfelli eru nokkur kirkjuleg örnefni. Niður af bæ er Prestavað á Grímsá og þar uppaf Prestavaðsbakki. Í túninu, milli Heimalækjar og Garðalækjar, er neðst Krosshóll, neðan vegar og niður af honum Biskupsmelur en sunnan við hann Krosshólsgrund. Eldri leið inn dalinn, Gömlugötur, er ofan við Prestholtið sem er milli Litla-lækjar og Leirlækjar innan við Mið-Sandfell nokkru ofar en þjóðvegurinn.

Í sjónlínu frá Mýrum í átt að Þingmúla er Kirkjusteinn á Kirkjusteinsholti við kirkjuleið um Grafarlækjarvað á Geitdalsá. Í Krosshól, út og niður af bæ á Arnhólsstöðum, hafa fundist beinagrindur en ekki eru til heimildir um kirkju þar.

Heimild:
Vigfús Ingvar Ingvarsson, 2011: Kirkjur og kirkjugöngur í Múlaprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: