Píanótónleikar í Egilsstaðakirkju

Föstudagskvöldið 23. ágúst flytur hinn kunni píanóleikari, Peter Maté, öll píanóeinleiksverk John Speight í Egilsstaðakirkju. Tónleikarnir hefjast kl. 20:00. Aðgangur er ókeypis en frjáls framlög renna í Orgelsjóð Egilsstaðakirkju. Efnisskráin er sem hér segir:

5 pieces (1968)

Deux Hommages (1978)

3 prelúdíur (1981)

Kvöldljóð (1996)

Manhattan Moments (1997)

Sonata per pianoforte (1998)

Hommage á Brahms (2018) – frumflutningur

Það er sjaldgæft að heilir tónleikar séu tileinkaðir einu nútímatónskáldi. Hér flytur Peter Máté sjö verk fyrir einleikspíanó eftir John Speight en verkin spanna fimm áratugi. Því má segja að um sé að ræða þverskurð af tónsmíðaferli John Speight, elsta verkið samið á stúdentsárunum tónskáldsins og það yngsta, sem er jafnframt nýjasta verk John Speight, var samið 2018 og verður frumflutt á þessum tónleikum. Peter hefur flutt mörg píanóverka Johns Speight í gegnum tíðina en síðastliðin tvö ár hefur hann unnið markvisst að því að læra öll píanóverk tónskáldsins.

Tónleikarnir eru styrktir af Tónlistarsjóði og verða í framhaldinu fluttir víðar um landið.

***

John Speight

John Speight fæddist á Englandi. Hann stundaði söngnám við Guildhall School of Music and Drama í Lundúnum á árunum 1964-72. Jafnframt lagði hann stund á tónsmíðar við sama skóla, undir handleiðslu B. Orr, og var í einkatímum hjá hinu þekkta tónskáldi Richard Rodney Bennett. Árið 1972 fluttist hann til Íslands og hefur verið búsettur hér síðan og er íslenskur ríkisborgari.

Eftir John liggja margs konar tónsmíðar, stórar og smáar, allt frá einleiks- og einsöngsverkum upp í hljómsveitarverk. Önnur sinfónía Johns Speight var flutt á alþjóða tónlistarhátiðinni ISCM – International Society for Contemporary Music árið 1992 og fimm sinnum hafa tónsmíðar hans verið fluttar á Norrænum músíkdögum, þar af tvær sinfóníur ásamt kammerverkum. Árið 1995 fékk John Speight listamannalaun til þriggja ára og dvaldi þá um eins árs bil í Bandaríkjunum þar sem hann samdi nokkur verk, meðal annars þriðju sinfóníu sína. Lagaflokkur við ljóð Emily Dickinson, The Lady in White var frumfluttur í New York árið 1997, og Sam‘s Mass fyrir blandaðan kór, sólósópran og óbó sem samin var til minningar um ungan vin tónskáldsins sem lést af slysförum var frumflutt í Bretlandi árið 1998. Schola Cantorum frumflutti verkið á Íslandi, í Hallgrímskirkju í janúar 1999.

John Speight var kosinn formaður Tónskáldafélags Íslands 1992 og gegndi hann því embætti til ársins 1995. Hann hefur haldið fjölda einleikstónleika, komið fram með mörgum kammerhópum og sungið ýmis óperuhlutverk á íslensku sviði, bæði í Þjóðleikhúsinu og Íslensku óperunni, auk þess sem hann hefur kennt söng og tónfræði við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar.

Peter Máté

Peter Máté píanóleikari er af ungversku bergi brotinn en hann er fæddur í Rožňava í Tékkóslóvakíu. Hann hefur verið búsettur á Íslandi frá árinu 1990. Peter stundaði píanónám frá unga aldri en lauk einleikara- og kennaramastersgráðu úr Tónlistarakademíunni í Prag. Á námsárunum vann hann til margra verðlauna í heimalandi sínu og síðar í alþjóðlegum keppnum, svo sem í Vercelli og Enna á Ítalíu á árunum 1986 og 1989.

Hann hefur komið fram sem einleikari með mörgum helstu hljómsveiturm heimalands síns en einnig með Útvarpshljómsveitinni í Berlín og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Peter hefur flutt og frumflutt mörg íslensk píanó- og kammerverk og haldið fyrirlestra um íslenska píanótónlist erlendis svo sem í Finnlandi, Rússlandi, Austurríki og Slóvakíu. Árið 2012 frumflutti Peter Píanókonsert Jóns Ásgeirssonar ásamt Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.

Peter hefur haldið fjölmarga einleikstónleika og tekið þátt í kammertónleikum víða á Íslandi með tónlistarhópum á bovð við Tríó Reykjavíkur og Kammertríó Kópavogs og farið í tónleikaferðir til Frakklands, Bretlands og Bandaríkjanna auk austur-Evrópulanda.

Peter er prófessor við Listaháskóla Íslands og kennir einnig við Menntaskólann í tónlist. Hann hefur haldið masterklassa við fjölda erlendra háskóla og tónlistarskóla á Íslandi.

Sunnudagurinn 18. ágúst

Messa í Egilsstaðakirkju kl. 10:30.

Prestur: Þorgeir Arason. Organisti: Torvald Gjerde. Meðhjálpari: Gísli Þór Pétursson. Almennur söngur. Kaffisopi eftir messu.

Guðsþjónusta beggja siða á Skriðuklaustri kl. 14:00

Prestar: Ólöf Margrét Snorradóttir og Pétur Kovacik frá Kaþólsku kirkjunni. Organisti: Jón Ólafur Sigurðsson. Almennur söngur. – Guðsþjónustan er hluti af dagskrá Töðugjalda í Fljótsdal.

Kvöldmessa í Hjaltastaðarkirkju kl. 20:00 (sjá hér að neðan)

Síðsumarmessa í Hjaltastaðarkirkju 18. ágúst kl. 20.00

Við komum saman til kvöldmessu sunnudaginn 18. ágúst kl. 20. Sigríður Laufey Sigurjónsdóttir og Droplaug Dagbjartsdóttir leika á orgel, Áslaug Sigurgestsdóttir leikur á þverflautu og forsöngvarar leiða okkur í almennum söng.

 Prestur er sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir og meðhjálpari er Hildigunnur Sigþórsdóttir.

Hildigunnur Sigþórsdóttir lætur nú af störfum í sóknarnefnd Hjaltastaðasóknar og eru henni þökkuð sín óeigingjörnu störf fyrir sóknina og kirkjuna síðastliðna áratugi. Af því tilefni er viðstöddum boðið að þiggja veitingar í Hjaltalundi að messu lokinni.

Bakkagerðiskirkja – Kvöldmessa 14. ágúst

Sú hefð hefur myndast að syngja kvöldmessu í Bakkagerðiskirkju, Borgarfirði eystra, í miðri viku um síðsumarið.

Bakkagerðiskirkja. Í baksýn sést Heiðargerði (safnaðarheimili og heilsugæsla)

Miðvikudagskvöldið 14. ágúst verður því kvöldmessa í Bakkagerðiskirkju kl. 20:00. Sr. Þorgeir Arason sóknarprestur þjónar. Organisti er Jón Ólafur Sigurðsson og Bakkasystur syngja. Meðhjálpari er Kristjana Björnsdóttir.

Kaffisopi í Heiðargerði eftir messuna. Allir velkomnir.

Kvöldmessa í Þingmúlakirkju og Eiðakirkju sunnudaginn 11. ágúst kl. 20

,,Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni er byggði hús sitt á bjargi.“ Mt. 7.24

Sunnudaginn 11. ágúst verða tvær messur kl. 20.

Annars vegar í Þingmúlakirkju. Þar mun sr. Þorgeir Arason þjóna. Kór Vallaness og Þingmúla leiðir almennan safnaðarsöng og organisti er Torvald Gjerde.

Hin verður í Eiðakirkju. Kirkjukór Eiðakirkju leiðir almennan safnaðarsöng. Organisti er Jón Ólafur Sigurðsson og prestur er sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir.

Verið velkomin í kirkjuna

Valþjófsstaðarkirkja: Kvöldmessa 4. ágúst kl. 20

Jesús sagði: „Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra sem til mín kemur og þann aldrei þyrsta sem á mig trúir. (Jóh 6.35)

Verið velkomin til messu á sumarkvöldi í Fljótsdalnum
sunnudaginn 4. ágúst kl. 20.

Organisti Jón Ólafur Sigurðsson, prestur Ólöf Margrét Snorradóttir.

Sunnudagurinn 28. júlí: Lesmessa í Egilsstaðakirkju kl. 20

Sr. Ólöf Margrét Snorradóttir þjónar í lesmessu í Egilsstaðakirkju kl. 20, sunnudaginn 28. júlí.
Ritningarlestur, hugleiðing, bænastund og altarisganga.

Verið velkomin.

Kvöldmessa í Kirkjuselinu 21. júlí kl. 20

Ljúfir tónar á sumarkvöldi í Kirkjuselinu, Fellabæ.

Kvöldmessa á ljúfum nótum sunnudaginn 21. júlí kl. 20.
Øystein Magnús Gjerde leikur á gítar og leiðir söng.
Sr. Ólöf Margrét Snorradóttir þjónar. 
Kvöldkaffi að messu lokinni.
Komið fagnandi!

Sunnudagurinn 14. júlí: messa í Egilsstaðakirkju kl. 10:30 og á Klyppsstað kl. 14.

Messa í Egilsstaðakirkju kl. 10:30 – ferming.
Prestur sr. Ólöf Margrét Snorradóttir. Organisti Tryggvi Hermannsson.

Messa í Klyppsstaðarkirkju í Loðmundarfirði kl. 14.
Prestur sr. Þorgeir Arason, organisti Jón Ólafur Sigurðsson, Bakkasystur leiða söng. Messukaffi í skála Ferðafélagsins að messu lokinni.

Messa í Klyppsstaðarkirkju

Klyppsstaðarkirkja

Árleg messa á Klyppsstað í Loðmundarfirði fer fram sunnudaginn 14. júlí kl. 14:00.
Prestar sr. Jóhanna I. Sigmarsdóttir og sr. Þorgeir Arason.

Organisti Jón Ólafur Sigurðsson.

Bakkasystur frá Borgarfirði leiða sönginn.

Kirkjukaffi í skála Ferðafélags Fljótsdalshéraðs á staðnum að messu lokinni.

Allir velkomnir!
Austurlandsprófastsdæmi

%d bloggurum líkar þetta: