Jólin eru magnaður og tilfinningaþrunginn tími. Um jólin og í aðdraganda þeirra gera alls konar minningar og söknuður vart við sig, hvort sem við viljum eða ekki. Um jólin söknum við þeirra sem voru með okkur en eru það ekki lengur. Hvernig getum við brugðist við því og hvernig getum við hlúð að minningum – og okkur sjálfum – á þessum sérstaka tíma?
Við bjóðum til samveru um sorg og missi í nánd jólahátíðarinnar í Kirkjuselinu Fellabæ, fimmtudagskvöldið 24. nóvember kl. 20. Sr. Hjalti Jón Sverrisson, sjúkrahúsprestur, flytur erindi um nærveru sorgarinnar um jólin. Þangað eru sérstaklega velkomin öll þau sem kljást við tilfinningar sorgar og missis á þessum jólum.
Á stundinni mun Ína Berglind Guðmundsdóttir syngja og leika á gítar, eigin verk og annarra. Boðið verður upp á kaffi, konfekt og spjall í lok stundar. Verið innilega velkomin.
Hægt er að styrkja jólasjóðinn með því að leggja inn á reikning 0175-15-380606 kt. 530505-0570
en söfnunarreikningurinn er í nafni Safnaðarsamlags Egilsstaðaprestakalls.
Markmið Jólasjóðsins er að styrkja fjölskyldur og einstaklinga í Múlaþingi sem búa við þröngan kost og létta þannig undir fyrir jólahátíðina. Einnig er hægt að sækja um aukaúthlutun allt að tvisvar á ári utan desembermánaðar. Samstarfsaðilar i Múlaþingi eru Þjóðkirkjan, Rauði krossinn, Lions og Afl auk Félagsþjónustunnar.
Á lífsleiðinni skiptast á skin og skúrir, gleði og sorgir. Við áföll og missi er gott að leita stuðnings og hlustunar. Prestar veita margs konar ráðgjöf og stuðning og er öllum frjálst að leita til þeirra. Ekki er greitt fyrir sálgæsluviðtöl.
Færðu inn athugasemd
Comments 0