Glefsur úr sögu Egilsstaðakirkju

Ef hægt væri að ferðast með tímavél til ársins 1974 er ekki víst að þau, sem flutt hafa til Egilsstaða á seinni árum, myndu kannast við sig í bænum árið sem kirkjan var vígð. Íbúar voru vitaskuld miklu færri, malbikaðar götur örfáar, Kaupfélagið mikilvægasti hlekkurinn í atvinnulífinu og þannig mætti áfram telja. En það var hugur í Egilsstaðabúum að fá sína eigin kirkju og mörgum þótti það mikilvægur liður í að þetta vaxandi samfélag stæði á eigin fótum.

Vígsla Egilsstaðakirkju 16.06 1974
Fyrir altari tveir af fyrrverandi prestum Vallanessóknar þeir séra Gunnar Kristjánsson (f.1945) og séra Marinó Kristinsson (f.1910 – d.1994). Til hliðar við altarið situr þáverandi sóknarnefnd þau Aðalsteinn Halldórsson (f.1923 – d.1994), Sigríður Fanney Jónsdóttir (f.1894 – d.1998) og Þórður Benediktsson (f.1919 – d.1977).

Strax við fyrsta skipulag þorpsins voru ráðamenn Egilsstaðahrepps meðvitaðir þess að fullburða sveitarfélag hlyti að hafa kirkju á lykilstað í byggðinni. Árið 1948 var gert ráð fyrir að kirkja risi við enda Lagarássins – þ.e. vestarlega innst á núverandi bílastæði kirkjunnar. Einnig var í upphafi lagt til að grafreitur bæjarins yrði nærri kirkjunni, eða á uppfyllingu á Gálgási. Sem kunnugt er átti hvort tveggja eftir að breytast. Samþykkt var tillaga fjölskipaðrar nefndar um kirkjugarðsmálin að grafreiturinn yrði á núverandi stað í Hringtjarnarmó, milli Kolls og Kletta. Þar var jarðsett í fyrsta skipti 1950. Þegar Hilmar Ólafsson (1936-1986) kom svo til sögunnar sem arkitekt Egilsstaðakirkju þá færði hann kirkjuna úr samhengi þorpsins og fremur í samhengi héraðsins með því að staðsetja hana uppi á Gálgaásnum þar sem framlengdar veglínur að byggðinni skerast.

Egilsstaðasöfnuður var formlega stofnaður síðla hausts 1960 og fyrstu árin fóru guðsþjónustur fram í barnaskólanum. Fyrstu sóknarnefndina skipuðu Sigríður Fanney Jónsdóttir, Margrét Gísladóttir og Þórður Benediktsson. Kirkjubyggingin sjálf var svo mikið átak, og lauk ekki fyrr en með aðkomu sveitarfélagsins í tilefni af þjóðhátíðarátaki vegna 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar. Byggingarfélagið Brúnás var aðalverktakinn og Þórhallur Eyjólfsson byggingameistari. Hr. Sigurbjörn Einarsson biskup tók fyrstu skóflustunguna að kirkjunni árið 1968 og vígði hana þann 16. júní 1974. Daginn eftir vígsluna var svo fyrsta fermingin í kirkjunni.

Safnaðarstarf og helgihald hefur alla tíð verið fjölbreytt og tónlistarlíf skipt miklu máli. Kór Egilsstaðakirkju er reyndar eldri en kirkjan þar sem hann var stofnaður undir nafninu Kirkjukór Egilsstaðahrepps árið 1957. Orgelið kom í kirkjuna 1978 og var það enn eitt þrekvirki safnaðarfólks þrátt fyrir erfiðan fjárhagsgrundvöll á þessum árum.

Byggt á grein sr. Vigfúsar Ingvars Ingvarssonar, sóknarprests Egilsstaðakirkju 1976-2010, sem birtist í tímaritinu Glettingi nú í sumar, en þar má fræðast miklu meira um sögu kirkjunnar.

Posted on 15/06/2024, in Uncategorized. Bookmark the permalink. Færðu inn athugasemd.

Færðu inn athugasemd