Líf og fjör í kirkjukórnum

Kór Egilsstaðakirkju fer mikinn í kringum jólin. Laugardaginn 16. desember söng kórinn í Hreindýragarðinum á Vínlandi en þar var opið hús og boðið upp á jólakakó. Þar var fullt af fólki og mikil stemning!

Miðvikudaginn 20. desember fer kórinn síðan í Vök og syngur fyrir baðgesti. Kórinn hefur upp raust sína kl. 18. Sándor organisti verður með hljómborðið og sr. Kristín með gítarinn sinn. Að sjálfsögðu verða baðfötin tekin með og tánum dýft í vakirnar að söng loknum.

Á Þorláksmessu 23. desember verður svo opin söngstund með kórnum í kirkjunni kl. 16 og síðan farið út á kanta. Þá höldum við út í rökkvað kvöldið og syngjum fyrir gesti og gangandi á völdum stöðum í bænum okkar.

Um kvöldið eru Jólatónar í kirkjunni milli kl. 22:00-23:00 þar sem Sándor organisti og gestir koma fram. Hægt að koma og fara að vild.

Svo tekur sjálft jólahelgihaldið við og kórinn syngur við tvær athafnir þann 24. desember. Kl. 18 er hefðbundinn aftansöngur með hátíðartóni sr. Bjarna Þorsteinssonar og kl. 23 er jólanæturguðsþjónusta þar sem hátíðartónið er einnig flutt. Að ógleymdum öllum dásamlegu jólasálmunum!

Kór Egilsstaðakirkju óskar öllum árs og friðar um hátíðirnar og býður ykkur velkomin til að njóta fallegrar tónlistar í kirkjunni okkar.

Posted on 20/12/2023, in Uncategorized. Bookmark the permalink. Færðu inn athugasemd.

Færðu inn athugasemd