Fermingarbörn safna fyrir vatnsverkefnum – Hjálparstarf kirkjunnar

Eins og hefð er fyrir ætla unglingar sem sækja fermingarfræðslu í Egilsstaðaprestakalli að ganga í hús og safna fyrir vatnsverkefnum Hjálparstarf kirkjunnar í Eþíópíu og Úganda.

Meðal þess sem börn í fermingarfræðslu þjóðkirkjunnar fá að kynnast í vetur er þróunarsamvinna og hjálparstarf á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar. Fermingarbörnin fá að kynnast aðstæðum sem fólkið á verkefnasvæðum býr við og rætt er um sameiginlega ábyrgð á því að allir jarðarbúar fái lifað mannsæmandi lífi. Það er líka mikilvægur liður í fermingarfræðslunni að læra um gildi náungakærleika og fá að taka þátt í verkefni sem raunverulega breytir lífsgæðum fjölda fólks. Að hafa aðgang að hreinu vatni hefur svo margþættar breytingar í för með sér og stuðlar að jafnrétti, því það er aðallega hlutverk stúlkna að sækja vatn og ef þær þurfa að fara um langan veg þá komast þær ekki í skóla.

Í kjölfar fræðslunnar ganga fermingarbörnin í hús og safna framlögum til verkefna sem kynnt hafa verið. Fyrir söfnunina fá börnin leiðbeiningar um framkomu, öryggi og að gleyma ekki að vera vel klædd. Börnunum er uppálagt að fara alltaf  tvö og tvö saman, í einhverjum tilfellum fylgja foreldrar þeim.

Börn í fermingarfræðslu hafa í meira en tuttugu ár lagt sitt af mörkum til Hjálparstarfs með því að ganga í hús með bauk Hjálparstarfs kirkjunnar. Framlag fermingarbarna er afar mikilvægt en árið 2022 söfnuðu þau um 8 milljónum króna með þessum hætti.

Styðja má fjáröflun fermingarbarna til verkefna Hjálparstarfs kirkjunnar Afríku með því að hringja í söfnunarsíma 907 2003 og gefa 2.500 krónur, leggja upphæð að eigin vali inn á reikning 0334-26-56200, kennitala 450670-0499 eða greiða með greiðslukorti hér.

Unglingarnir ganga í hús með innsiglaða söfnunarbauka, en á baukunum er líka QR -kóði svo þau sem ekki eru með reiðufé á sér geta líka lagt söfnuninni lið með stafrænum greiðslulausnum.

Gengið er í hús í Fellabæ mánudaginn 6. nóvember

á Egilsstöðum þriðjudaginn 7. nóvember

og á Seyðsifirði miðvikudaginn 8. nóvember

Tökum vel á móti fermingarbörnunum sem láta gott af sér leiða! 

Posted on 02/11/2023, in Uncategorized. Bookmark the permalink. Færðu inn athugasemd.

Færðu inn athugasemd