Ferming 2026

Til foreldra og forráðamanna barna á Héraði f. 2012!

Barninu þínu er boðið að taka þátt í fermingarundirbúningi þjóðkirkjunnar í Egilsstaðaprestakalli veturinn 2025-2026. Umsjón með starfinu hafa prestarnir Jarþrúður, Sveinbjörn og Þorgeir. Hægt verður að sækja fermingarfræðslu í Safnaðarheimili Egilsstaðakirkju eða í Kirkjuselinu í Fellabæ.

Skráning í fermingarundirbúning fer fram hér.

Í fermingarfræðslu þjóðkirkjunnar er lögð áhersla á góða samveru, helgihald kirkjunnar og að kynna og upplifa sögur Biblíunnar, boðskap Jesú, kristna siðfræði og gildi trúarinnar í daglega lífinu okkar.

Upphaf fermingarstarfsins verður með guðsþjónustu og kynningarfundi fyrir væntanleg fermingarbörn og forráðamenn:

  • í Egilsstaðakirkju, sunnudaginn 31. ágúst kl. 20:00

Tímasetning fræðslunnar veturinn 2025-2026 (veljið einn hóp):

a) Safnaðarheimili Egilsstaðakirkju (Hörgsás 4): þriðjudaga kl. 15:45-16:45 (10x /önn)

b) Safnaðarheimili Egilsstaðakirkju (Hörgsás 4): miðvikudaga kl. 7:55-8:40 (12x/ önn)

c) Kirkjuselið Fellabæ (sambyggt íþróttahúsinu): tímasetning auglýst síðar í samráði við hópinn.

Fermingarnámskeið (fermingarbúðir) í Kirkjumiðstöð Austurlands að Eiðum verður að vanda í haust. Þetta er mikilvægur og skemmtilegur hluti af fermingarvetrinum þar sem við gistum tvær nætur og tökum þátt í fjölbreyttri og líflegri dagskrá. Mæting á Eiðum miðvikudaginn 24. september kl. 18:00 og heimferð föstudaginn 26. september kl. 12:00.

Nánari áætlun og upplýsingar um starfið í vetur verða kynntar á fundinum 31. ágúst.

Hægt verður að velja um eftirfarandi fermingardaga vorið 2026:

Áskirkja í Fellum: Nánar auglýst síðar.

Egilsstaðakirkja: 2. apríl (skírdagur) og 24. maí (hvítasunnudagur) 2026. Athafnir hefjast kl. 10:30.

Aðrar kirkjur: Eftir samkomulagi við prest. Ath! Miðað er við að ein fermingarathöfn sé í boði í hverri af öðrum kirkjum prestakallsins.

Fermingarfræðslugjald: 24.992 kr.

Kostnaður við fermingarbúðir á Eiðum:

kr. 11.500 fyrir fermingarbörn sem skráð eru í þjóðkirkjuna (fullt verð kr. 15.000, þjóðkirkjusöfnuðirnir niðurgreiða fyrir sitt fólk) – innifalið fæði og gisting í tvær nætur.

Allar nánari upplýsingar hjá prestunum.

Kærleikskveðjur,

Jarþrúður Árnadóttir, s. 823 4630 (jarthrudur@kirkjan.is)

Sveinbjörn Dagnýjarson, s. 779 7838 (sveinbjorn.dagnyjarson@kirkjan.is)

Þorgeir Arason s. 847 9289 (thorgeir.arason@kirkjan.is)

Nánari upplýsingar:

„Vertu trú(r) allt til dauða, og ég mun gefa þér kórónu lífsins.“ Opb. 2.10c.

Ferming þýðir staðfesting. Í fermingunni staðfestir barnið skuldbindingu foreldra og guðfeðgina í skírnarathöfninni. fer með trúarjátninguna, vinnur fermingarheit og þiggur fyrirbæn og blessun. Fermt er við messu. Til þess að öðlast rétt til að mega fermast tekur fermingarbarnið þátt í fermingarundirbúningi hjá presti sínum eða fermingarfræðara, og kynnist þannig kristnum fræðum betur.

Við gleðjumst yfir að þú hafir áhuga á að taka þátt í fermingarundirbúningi Þjóðkirkjunnar og hlökkum til að kynnast þér betur.

Í fermingarfræðslunni tölum við um trúna og tilveruna, sorg og gleði, fyrirgefningu, vináttu og gildin í lífinu, boðskap Jesú og hvernig hann tengist nútímanum. Við kynnumst og ræktum trúna á Guð sem styrkjandi afl á lífsgöngunni.

Færðu inn athugasemd